Engar bækur eru bannaðar

Höfundur: Guttormur Þorsteinsson

A man reading a book in a library
Guttormur Þorsteinsson fjallar um hinsegin bókasafnskost Borgarbókasafns

Á Hinsegin dögum í Reykjavík hefur bókabíllinn blái þjónað sem lítið hinsegin útibú Borgarbókasafnsins þar sem er hægt að skoða og fá lánaðar bækur um og eftir fólk af öllum kynjum og kynhneigðum. Sá bókakostur kemur úr hinsegin deild Borgarbókasafnsins í Grófinni. Hún er byggð á grunni bókagjafar Samtakanna ‘78 árið 2014. Síðan þá hefur bókasafnið haldið áfram að kaupa inn bækur enda hefur úrvalið aukist mikið síðustu ár og orðið auðveldara að kaupa bækur sem snerta á öllum hinum fjölmörgu þáttum hinsegin kynverundar, hvort sem það eru fræðibækur eða skáldverk.

Ég vinn sjálfur á Kringlusafni svo ég gerði mér ferð niður í Grófina til að skoða deildina. Upplýsingaspjald við afgreiðsluna beinir okkur strax upp á aðra hæð. Þegar komið er út úr lyftunni erlendu skáldsagnamegin sést að við erum á réttum stað.

Fyrir innan spennusögurnar finn ég gang með bókum sem eru merktar bleikum punkti á báða bóga. Þar tók starfsmaður Grófarinnar á móti mér og sýndi mér fjölbreytnina í bókakostinum.

Fyrir bókavörð eins og mig var uppröðunin kunnugleg. Fyrst á vinstri hönd komu flokkabækurnar svokallaðar, það er fræðibækur og aðrar sem eru auðkenndar með flokkstölu. Það eru þó ekki bara þurrar skruddur heldur líka gersemar eins og ljósmyndabókin To Survive on this Shore um eldra trans fólk og auðvitað úrval bóka um sögu hinsegin baráttu og hinsegin fræði.

Þar eru einnig ævisögur og minningar hinsegin fólks. Samstarfsmaður minn mælti til dæmis með bókinni Gay Bar eftir Jeremy Atherton Lin. Í henni fer hann aftur í tímann og skoðar hommabarina sem mótuðu hann og hvaða þýðingu þetta menningarfyrirbrigði, sem er mögulega í útrýmingarhættu, hefur. Þar má líka finna ævisögu Anne Lister eftir Angelu Steidele, Gentleman Jack, en samnefndir þætti sem BBC og HBO framleiða eru byggðir á henni. Dagbækur Lister sem hefur verið kölluð fyrsta nútímalesbían voru skrifaðar á dulmáli sem náðist ekki að leysa úr fyrr en löngu eftir dauða hennar. Þær þóttu svo berorðar að fyrst var álitið að þær væru falsanir.

Næst koma ljóðabækurnar sem eiga það stundum til að verða útundan. Af íslenskum ljóðabókum má nefna Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum eftir Elías Knörr og Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur. Við rákumst svo á hina forvitnilegu Wound from the Mouth of a Wound eftir torrin a. greathouse sem er óhugnanleg rannsókn á kynvitund og ofbeldi í bundnu máli.

Stærstur hluti deildarinnar eru skáldsögurnar. Þar má finna allt frá klassík eins og bókaflokkinn Armistead Maupin um nágranna í San Francisco, Tales of the City, yfir í kynsegin vísindaskáldsögur eins og The Trans Space Octopus Congregation, safn smásaga eftir Bogi Takács. Svo má nefna verðlaunabókina Shuggie Bain eftir Douglas Stuart sem fjallar um samband samkynhneigðs drengs við áfengissjúka móður sína.

Að lokum koma myndasögurnar. Sú vinsælasta er auðvitað ekki inni, Heartstopper eftir Alice Oseman um unglingsstrák sem fellur fyrir skólafélaga sínum. Gender Queer eftir Maia Kobabe er það hinsvegar. Hún er ævisöguleg og nýtur þess vafasama heiðurs að vera sú bók sem oftast var reynt að banna á bandarískum bókasöfnum í fyrra vegna hreinskilinnar umfjöllunar um kynseiginleika höfundar.

Þema bókabílsins í ár á Hinsegin dögum verður akkúrat bannaðar bækur. Ein algengasta ástæðan fyrir því að reynt sé að úthýsa bókum af bókasöfnum er sú að þær fjalla um hinsegin fólk og hinsegin þemu. Ásamt Gender Queer er bókin All Boys Aren’t Blue nálægt toppi bandaríska listans enda fjallar hún bæði um rasisma og samkynhneigð. Höfundur hennar George M. Johnson verður heiðursgestur viku bannaðra bóka í Bandaríkjunum 18. til 24. september síðar á þessu ári og hún er auðvitað til í hinsegin deildinni.

Hinsegin deildin í Grófinni er svo ekki eini staðurinn þar sem hinsegin bækur má finna á Borgarbókasafninu. Fyrir tveimur árum skrifaði ég um hinsegin barna- og unglingabækur sem er að finna í unglingadeildum allra útibúa og síðan þá hefur úrvalið bara aukist. Þó að úrvalið á íslensku sé kannski ekki eins fjölbreytilegt stefnir það til bóta og ef grannt er skoðað hefur kynusli og samkynhneigð læðst inn í íslenskar bókmenntir langt aftur á síðustu öld.