Í góðra kvenna hópi

Elísabet Þorgeirsdóttir hefur verið virk í Samtökunum ‘78 um árabil og sinnir nú félagsráðgjöf í ráðgjafahópi Samtakanna. Hún starfar sem félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg en var um árabil blaðamaður og ritstjóri, síðast á kvennatímaritinu Veru. Árið 1985 stofnaði hún ásamt öðrum konum félagið Íslensk-lesbíska sem hafði þann tilgang að styrkja sjálfsmynd lesbía og gera þær sýnilegar innan kvennahreyfingarinnar. Árið 1993 var hún enn fremur ein af stofnendum Trúarhóps Samtakanna ‘78 þar sem kristin trú var iðkuð á forsendum samkynhneigðra. Við tókum Elísabetu tali og spurðum hana meðal annars um aðdraganda þess að Íslensk-lesbíska var stofnað.

Ég gekk í Samtökin ‘78 árið 1984. Þá var ég að koma út 29 ára gömul þótt ég hefði vitað í mörg ár að ég væri samkynhneigð. Ég hellti mér strax út í starfið, sat í stjórn um tíma og vann að blaðinu okkar, Úr felum. Þegar ég kom inn í samfélagið fannst mér mikilvægt að kynnast öðrum sem voru í sömu sporum og þarna voru mynduð tengsl og skapaður grunnur að vináttu sem verður sterk hjá minnihlutahópum og minnir á fjölskyldubönd.
Við lesbíurnar héldum vinsæl kvennakvöld þar sem konur fengu tækifæri til að hittast í öruggu umhverfi og kynnast. Við höfðum margar stundað skemmtistaðinn Óðal við Austurvöll sem var vinsæll í okkar hópi eða þangað til eigendur staðarins meinuðu hommum og lesbíum aðgang. Um svipað leyti opnaði veitingastaðurinn Kaffi Gestur á Laugavegi 28 og varð fljótt vinsæll hjá hópnum. Þarna var eitthvað nýtt á ferðinni og markaði upphaf að annars konar skemmtanalífi í Reykjavík. Eftir að Kaffi Gestur hætti rekstri flutti hópurinn sig yfir á Laugaveg 22 og þar hafa verið reknir staðir sem samkynhneigt fólk hefur sótt allt til dagsins í dag.

Frá stofnfundi Íslensk-lesbíska á Hótel Vík árið 1985. Elísabet í sófanum í bleikum jakka.
Frá stofnfundi Íslensk-lesbíska á Hótel Vík árið 1985. Elísabet í sófanum í bleikum jakka.

Aðdragandinn að stofnun Íslensk-lesbíska

Þegar við stofnuðum Íslensk-lesbíska árið 1985 var fyrir hendi þessi þörf fyrir að hittast og gleðjast saman í öruggu umhverfi og það höfðum við lesbíurnar gert í óformlegum hópi sem við nefndum Kvennahóp Samtakanna ’78. Okkur langaði líka að efla femíníska vitund og gera okkur gildandi innan kvennahreyfingarinnar eins og lesbíur gerðu í öðrum löndum. Við fundum okkur ekki stað hvað þetta varðar innan Samtakanna og langaði að gera okkur sýnilegar með því að sækja um að fá herbergi í Kvennahúsinu á Hótel Vík við Ingólfstorg. Þar var Kvennaframboðið og Kvennalistinn til húsa og einnig Samtök kvenna á vinnumarkaði, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna og fleiri. Þannig var hugmyndin að baki Íslensk-lesbíska öðrum þræði pólitísk. Á þessum árum setti sjúkdómurinn alnæmi mikinn skugga á okkar unga hinsegin samfélag og tók mikla orku, sérstaklega frá strákunum því sjúkdómurinn lagðist á þá.

Fannst ykkur þið vera útundan í Samtökunum?
Nei, okkur langaði bara að gera þetta og fannst þá betra að stofna eigið félag frekar en að biðja strákana um leyfi til að fá að vinna að okkar hugðarefnum. Það vó þyngra að vera sjálfstæðar og hluti af kvennahreyfingunni. Svo var misjafnt hvort konur voru áfram í Samtökunum; sumar voru félagar en aðrar ekki.

Stofnun félags og starfsemin

Forsíða fyrsta fréttabréfs Íslensk-lesbíska í október 1986.
Forsíða fyrsta fréttabréfs Íslensk-lesbíska í október 1986.

Það tók tíma fyrir konurnar í Kvennahúsinu að samþykkja að við í Íslensk-lesbíska kæmum þangað inn. Það var líka tímanna tákn en árið 1985 var bara ekki talað um lesbíur. Það þurfti að taka beiðni okkar fyrir á nokkrum fundum í húsráði og var henni fyrst hafnað á þeirri forsendu að það myndi ekki vera gott fyrir Kvennalistann; það gæti komið óorði á hann að hafa lesbíur þarna inni. Það var eldri kona sem lét bóka þetta en svo skipti hún um skoðun og mér þótti mjög vænt um það. Hún þurfti bara að átta sig og hún sýndi okkur vináttu eftir að hún kynntist okkur. Hún var að kynnast lesbíum í fyrsta skipti, eins og fleiri.
Það var stór hluti af verkefninu að sýna fram á að við værum ósköp venjulegar stelpur. Þannig varð sú aðgerð að fái inni í Kvennahúsinu til þess að opna augu fleiri og minnka fordóma. Við vorum að brjóta múr. En fordómar voru sannarlega til staðar í samfélaginu og þessi aðgerð var ögrandi. Ég get nefnt dæmi um það sem tengist Kvennahúsinu. Það var ákveðið að setja nöfnin á öllum félögum í húsinu á glerið í útidyrahurðinni. Okkur fannst rosalega flott að sjá nafnið okkar þar, fyrsta alvöru merkið um sýnileikann. En kona sem var sendill frá Alþingi þurfti oft að sendast með gögn á skrifstofu Kvennalistans og einhvern tímann í slíkri sendiferð hafði hún á orði að hún gæti varla stigið fæti inn í þetta hús. Nafnið Íslensk-lesbíska virtist valda henni þessum viðbjóði.

Hvernig fór starfsemi Íslensk-lesbíska fram?
Opin hús voru meginuppistaðan í starfi félagsins þar sem við hittumst og spjölluðum eins og við höfðum gert á kvennakvöldum í Samtökunum áður. Nokkrar fóru að lesa lesbískar bókmenntir og þýða. Ég þýddi til dæmis kafla úr The Colour Purple sem var ekki komin út á íslensku þá. Við kynntum okkur líka kvennatónlist og reyndum að finna bíómyndir með lesbíum en það var ekki auðvelt.

Á stofnfundinum, sem var haldinn á Hótel Vík, kom fram hugmyndin að nafni félagsins frá Ragnhildi Sverrisdóttur blaðamanni. Okkur fannst húmor í því og það var samþykkt; það minnti svolítið á heildsölu og það fannst okkur sniðugt. Á fundinum var sambýliskona mín, Stella Hauksdóttir, kosin talskona félagsins og tók sæti í húsráði Kvennahússins fyrir hönd félagsins. Á stofnfundinum veltum við fyrir okkur hvort við ættum að hafa félagaskrá en það þótti ekki æskilegt því margar voru ekki komnar svo langt í að opinbera kynhneigð sína að þær vildu vera á slíkri skrá þótt þær tækju þátt í því sem við vorum að gera. Ári seinna voru 20 komnar á félagaskrá og fengu fréttabréf sem ég sá um útgáfu á.

Kjarninn í félaginu var konur sem þekktust vel og svo buðu þær öðrum sem þær þekktu. Við auglýstum viðburði okkar líka í Þjóðviljanum. Þetta var svona hringur sem stækkaði og stækkaði. Svo var auðvitað símaráðgjöf í Samtökunum sem hópur sjálfboðaliða sinnti og var ég í þeim hópi um tíma. Stundum hittum við konur á kaffihúsi sem höfðu hringt í ráðgjafasímann og langaði að ræða málin betur. Sumar þeirra stigu skrefið áfram; aðrar sáum við aldrei aftur.  

Baráttan og sýnileikinn

Ég byrjaði með Stellu þegar ég kom út árið 1984. Sonur minn var þá sex ára og sonur hennar tólf ára. Þau fluttu til okkar frá Vestmannaeyjum og á heimili okkar varð fljótlega mikill gestagangur. Mörgum fannst spennandi að fá að koma inn á heimili þar sem tvær konur bjuggu saman með börn og voru eins og venjuleg fjölskylda. Við vorum staðfesting á því að þetta væri hægt og það gaf mörgum von. Við bjuggum á Lindargötunni, í næsta nágrenni við hús Samtakanna ’78, svo það var stutt að fara. Skólafélagar strákanna lærðu líka að það væri hægt að eiga tvær mömmur enda vorum við ekkert að fela og krakkarnir voru velkomnir á heimilið. Sonur minn sagði einhvern tíma í blaðaviðtali að heimilið hefði verið eins og félagsmiðstöð. Hann ólst upp við að hitta nýtt fólk og fannst það bara skemmtilegt. Stundum voru líka útlendir gestir því þegar Kvennahúsið var við lýði leituðu erlendar lesbíur þangað til að komast í kynni við lesbíur á Íslandi. Ég man eftir nokkrum sem komu til okkar og fengu jafnvel að gista.

Við Stella fórum í viðtal í Mannlífi árið 1987 ásamt fleiri lesbíum og það vakti mikla athygli. Þetta var í fyrsta skipti sem lesbíur voru framan á tímariti og blaðið seldist vel. Reyndar hafði birst viðtal við Láru Marteinsdóttur og Lilju Steingrímsdóttur í Helgarpóstinum árið 1983 og það var fyrsta opinbera viðtalið við lesbíur á Íslandi.

Greinin í Mannlífi var virkilega vel unnin; þar var kafli um sögu lesbía ásamt viðtölunum. Ég heyrði konur segja eftir það hvað það hefði verið mikilvægt fyrir þær að lesa þetta blað og sjá að það væru í alvöru til lesbíur og að það væri mögulegt að lifa opnu lífi.

Voru dæmi um að konur væru reknar út af heimilum sínum þegar þær komu út?
Ég veit það nú ekki en þetta var löng og ströng barátta og mörgum fannst erfitt að segja foreldrum sínum frá eða koma út á vinnustað sínum. Fólk gat átt á hættu að vera rekið úr vinnu eða sagt upp húsnæði fyrir það eitt að opinbera kynhneigð sína. Sem dæmi um tíðarandann má líka nefna að orðin hommi og lesbía máttu ekki heyrast í Ríkisútvarpinu og málfarsráðunautar reyndu að búa til orð sem sæmdi þeirri virðulegu stofnun. Mig minnir að það hafi verið orðið kynhverfur og að orðið kynvís hafi verið notað um gagnkynhneigð. Stundum rekst ég á þessi orð enn í gömlum þýðingum í sjónvarpi.  

Pólitísk áhrif

Tilvera Íslensk-lesbíska var bundin herberginu í Kvennahúsinu. Þegar íslenskar konur ákváðu að kaupa húsin á Vesturgötu 3, sem þær skírðu Hlaðvarpann, lokaði Kvennahúsið á Hótel Vík og starfsemi kvennahreyfingarinnar fluttist í Hlaðvarpann. Kvennalistinn flutti reyndar á Laugaveg 17 ásamt tímaritinu Veru og við Stella vorum virkar þar. Sama ár og Íslensk-lesbíska var stofnað lagði Kristín Kvaran, þingkona Bandalags jafnaðarmanna, ásamt fleirum fram þingsályktunartillögu um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki. Sú tillaga dagaði uppi í félagsmálanefnd en í desember 1991 lagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ásamt fleiri þingmönnum fram þingsályktunartillögu um skipun nefndar til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks. Samþykkt þeirrar tillögu 19. maí 1992 olli straumhvörfum í réttindabaráttunni en þar lýsti Alþingi yfir vilja sínum til að tryggja að misrétti gagnvart samkynhneigðum ætti sér ekki stað hér á landi.

Árið 1988 fór stór hópur íslenskra kvenna á norrænu kvennaráðstefnuna Nordisk Forum í Ósló og þar á meðal voru nokkrar úr okkar hópi. Þá nýttum við meðal annars tækifærið og hlýddum á danska konu segja frá starfi sínu við að hjálpa lesbíum að verða barnshafandi. Fjöldi barna hafði orðið til með hennar aðstoð en hún notaði gjarnan kampavínsglas til að flytja sæði á milli. Þetta var alveg nýtt fyrir okkur og við létum okkur dreyma um að íslenskar lesbíur gætu eignast börn í framtíðinni, eins og raunin hefur orðið.

Hvað varð um félagið þegar það hafði engan samastað?
Það lagðist bara niður en kjarninn hélt áfram að starfa innan Samtakanna. Árið 1989 varð Lana Kolbrún Eddudóttir formaður, fyrst kvenna, og síðan tóku fleiri konur við, Guðrún Gísladóttir og Margrét Pála Ólafsdóttir. Málefni kvenna urðu þar með sýnilegri en samt þótti ástæða til þess nokkrum árum seinna að stofna sérstakan kvennahóp, KMK (Konur með konum), sem hélt uppi svipuðu félagsstarfi og Íslensk-lesbíska gerði áður.  

Trúarhópurinn

Árið 1991 fór ég að kynna mér kvennaguðfræði, sem er femínísk guðfræði á forsendum kvenna, og ég var ein af stofnendum Kvennakirkjunnar árið 1993. Sú reynsla hvatti mig til að vinna í trúnni á forsendum samkynhneigðar sem er í raun sama hugsunin og í kvennaguðfræði, það er að finna að Guð elskar okkur eins og hún skapaði okkur. Við megum vera eins og við erum og eigum ekki að láta mótaðar hugmyndir um kyn eða kynhneigð kúga okkur. Af sama meiði er frelsunarguðfræði svartra og annarra minnihlutahópa.

Árið 1993 var Haukur F. Hannesson, sem hafði búið í Svíþjóð, búsettur hér á landi og hann hóaði saman áhugasömu fólki sem stofnaði Trúarhóp Samtakanna ’78. Við héldum helgistundir í húsnæði Samtakanna eða í kirkjum og fengum til liðs við okkur ýmsa presta úr þjóðkirkjunni sem um leið voru að kynnast okkur. Það var mikilvægur þáttur starfsins sem skilaði sér í góðu stuðningsfólki innan kirkjunnar.

Hluti af Trúarhópnum í Skálholti árið 1996. Með þeim er Ragnhildur Sverrisdóttir djákni og fræðslufulltrúi á Biskupsstofu og prestarnir Gunnar Rúnar Matthíasson og Auður Eir Vilhjálmsdóttir.
Hluti af Trúarhópnum í Skálholti árið 1996. Með þeim er Ragnhildur Sverrisdóttir djákni og fræðslufulltrúi á Biskupsstofu og prestarnir Gunnar Rúnar Matthíasson og Auður Eir Vilhjálmsdóttir.

Meðfram helgihaldi var stefna okkar að koma á formlegri samræðu við kirkjuna um málefni samkynhneigðra sem var stutt á veg komin á þessum árum. Fyrir hönd kirkjunnar sá Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni og fræðslufulltrúi á Biskupsstofu, um þetta samstarf sem endaði með málþingi snemma árs 1996. Það var mikilvægur áfangi að hlusta á Björn Björnsson, siðfræðiprófessor í guðfræðideild HÍ, taka afgerandi afstöðu með okkar málstað á þessu málþingi. Arftaki hans í starfi, Ólafur Oddur Jónsson, prestur í Keflavík, var líka ötull stuðningsmaður okkar á meðan hann lifði. Um þetta leyti voru lögin um staðfesta samvist að komast á lokastig og kirkjan varð að horfast í augu við það sem var að gerast.

Stór stund

Einn af eftirminnilegustu atburðunum sem Trúarhópurinn stóð fyrir var samvera í Fríkirkjunni kl. 23.30 þann 26. júní 1996. Þar fögnuðum við saman þeirri stóru stund þegar lögin um staðfesta samvist gengu í gildi 27. júní, á alþjóðlegum baráttudegi samkynhneigðra. Hvað varðar þann áfanga er mikilvægt að minnast þess mikla starfs sem fulltrúar okkar í nefnd um málefni samkynhneigðra, Lana Kolbrún Eddudóttir og Guðni Baldursson, lögðu af mörkum. Sú nefnd var skipuð af Alþingi eftir þingsályktunina frá 1992 og lagði drög að lögunum um staðfesta samvist. Það var stór stund þegar Lana og Jóka, ásamt fjölda annarra para, gengu í staðfesta samvist um leið og það var leyfilegt. Þá var gaman að fagna með Vigdísi forseta og Ingibjörgu Sólrúnu borgarstjóra í Borgarleikhúsinu.

"Forsíða Mannlífs sumarið 1996 þar sem ég skrifaði um það þegar samband Hauks og Jörgens var blessað í kirkju í Stokkhólmi. Það var stórt skref að fá birta mynd af tveimur hommum og presti á forsíðu blaðs á þessum tíma."
„Forsíða Mannlífs sumarið 1996 þar sem ég skrifaði um það þegar samband Hauks og Jörgens var blessað í kirkju í Stokkhólmi. Það var stórt skref að fá birta mynd af tveimur hommum og presti á forsíðu blaðs á þessum tíma.“

Samtalið við kirkjuna

Ég var blaðamaður á Mannlífi árið 1996 og fór til Stokkhólms til að vera viðstödd þegar Haukur F. Hannesson gekk að eiga sambýlismann sinn, Jörgen Boman, og skrifaði um það í blaðið. Þeir fóru fyrst til borgarfógeta en síðan í kirkju þar sem prestur blessaði sambúð þeirra. Slíkar athafnir höfðu þá ekki átt sér stað hér á landi en skömmu seinna byrjuðu prestar að blessa pör sem staðfestu samvist sína. Fyrsta athöfnin sem ég vissi um var þegar séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir blessaði Guðmund blómasala og Villa, sem einmitt voru félagar í Trúarhópnum.

Eftir að Haukur flutti aftur til Svíþjóðar kom það yfirleitt í minn hlut að tala fyrir hönd Trúarhópsins. Ég kom bæði fram í sjónvarpi og útvarpi þegar ræða þurfti við presta í tengslum við ályktanir þeirra á prestastefnu eða kirkjuþingi þar sem seint gekk að samþykkja stuðning við málefni samkynhneigðra. Ég talaði líka á málþingum í HÍ og á öðru þeirra tókumst við Karl biskup á um málin.

Tregðan innan kirkjunnar varð til þess að margt samkynhneigt fólk varð henni andsnúið og það bitnaði á Trúarhópnum. Okkur tókst ekki að koma því nógu vel til skila að við vorum sjálfstæður hópur sem iðkaði trúna á eigin forsendum en bar ekki ábyrgð á stefnu þjóðkirkjunnar. Fyrir mér er trúin það mikilvæg að ég læt ekki fordóma fólks innan kirkjunnar taka hana frá mér. Það varð mér mikil upplyfting að fara til New York árið 1999 og kynna mér starf kirkju samkynhneigðra þar í landi, Metropolitan Community Church (MCC), sem heldur úti öflugu trúarstarfi víða um heim. Árið 2001 fór ég á mót norrænna trúarhópa samkynhneigðra í Gautaborg ásamt Guðrúnu K. Guðfinnsdóttur og Jóni Helga Gíslasyni. Það varð okkur hvatning til að halda starfinu áfram hér heima en þegar við fundum ekki hljómgrunn meðal félaga okkar var félaginu sjálfhætt nokkrum árum síðar.

Mikilvægt að við reynum að skilja hvert annað

Á þeim rúmu 30 árum sem liðin eru frá því ég gekk til liðs við Samtökin ’78 hafa ótrúlega margir sigrar unnist. Stundum er eins og ekkert sé eftir – við megum giftast, eignast börn og höfum öll mannréttindi sem aðrir hafa í samfélaginu. En það koma alltaf upp ný mál sem takast þarf á við. Undanfarið hafa mikil átök átt sér stað innan hinsegin samfélagsins sem ég vona að leysist farsællega. Þau snúast meðal annars um það að eldri félögum finnst þau komin í minnihluta eftir því sem fjölbreytileikinn innan félagsins eykst. Í því efni finnst mér mikilvægt að við dæmum ekki á sama hátt og við vorum dæmd á árum áður. Það eru ekki allir eins; það getur verið erfitt að horfast í augu við þá staðreynd en er um leið mikil áskorun. Við þurfum að tala saman, kynslóðir hinsegin fólks, og reyna að skilja hvert annað. Vonandi tekst okkur það!