Kveðja frá Elizu Jean Reid, forsetafrú

A dark haired woman with a scarf and a necklace.

Kæru hinsegin vinir

Ég vil gjarna trúa því að Ísland sé jafnréttissamfélag þar sem öll fá að njóta sín. Samfélag sem viðurkennir takmarkanir sínar og vinnur af heilindum að því að bæta um betur. Engu að síður er það staðreynd að baráttunni fyrir lagalegum réttindum hinsegin fólks er enn ekki lokið hér á landi. Enn þurfum við að berjast gegn fordómum og hatri og því miður er enn ekki sjálfgefið að fólk geti lifað eigin lífi án áreitis.

Utan landsteinanna sjáum við uggvekjandi þróun þar sem vegið er að grundvallarmannréttindum í sumum nágrannalöndum okkar og í öðrum er beinlínis ráðist gegn tilvistarrétti hópa í hinsegin samfélaginu. Öll erum við líka slegin eftir hryðjuverkaárásina hjá nágrönnum okkar í Osló. Þessir atburðir eru hryggilegir, en hljóta líka að brýna okkur enn frekar í baráttunni. Við verðum að láta í okkur heyra og berjast fyrir réttlátu samfélagi og við verðum að tryggja að raddir allra heyrist.

Ég sé ykkur. Ég stend með ykkur. Við erum ótalmörg sem styðjum við bakið á ykkur.

Ég hlakka líka mikið til að taka þátt í gleðinni á Hinsegin dögum í ár, eins og alltaf, til að fagna þessu dásamlega, fjölbreytta og skemmtilega samfélagi.

Baráttukveðja,

Eliza