Mannréttindi og nýja stjórnarskráin

Kæru vinir,

Kannski hefur ekkert orð haft meiri áhrif á réttindabaráttu hinsegin fólks en orðið mannréttindi. Í sinni berstrípuðustu mynd þýðir þetta hugtak ákveðin réttindi sem manneskja hefur, bara á grundvelli þess eins að vera manneskja. Í gegnum söguna hefur það löngum liðist að draga úr mennsku hinsegin fólks. Við erum gerð að „hinum“, þeim sem ber að hræðast, hæða og fordæma. Smátt og smátt hafa sigrar unnist, meðal annars hér á Íslandi þar sem hugrakkar sálir háðu baráttu sem breytti hugarfari heillar þjóðar, eða svona næstum því.

Mannréttindabarátta er barátta fyrir því að allar manneskjur séu taldar jafnar að virði, óháð fjölbreytileika þeirra, og hafi sama rétt til að lifa við mannlega reisn. Þá baráttu verður að heyja á mörgum vígstöðum. Stjórnarskrá skiptir máli vegna þess að hún er grunnlögin sem öll önnur lög byggja á. Ef Alþingi setur lög sem eru ekki í samræmi við stjórnarskrá geta því dómstólar vikið þeim lögum til hliðar. Stjórnarskráin er trompið í spilinu. Það er einmitt þess vegna sem talað er um mannréttindi í stjórnarskrám, því þau skipta meira máli en aðrar reglur og önnur lög.

Við lifum á viðsjárverðum tímum þar sem einstaklingar drifnir áfram af hatri eiga sífellt auðveldara með að komast til valda með því að ala á ótta við „hina“. Úti um allan heim er verið að taka stór skref afturábak í mannréttindavernd kvenna, hinsegin fólks og annarra jaðarsettra hópa.

Þrátt fyrir að staðan hér sé að mörgu leyti góð sitjum við enn ekki öll við sama borð. Hér er til dæmis hægt að nefna réttindi intersex fólks og trans fólks. Einnig þeirra sem sæta fjölþættri mismunun vegna þess að þau tilheyra fleiri en einum jaðarsettum hópi.

Eftir Hrunið 2008 fór fram fallegt ferli þar sem skrifuð var ný stjórnarskrá fyrir Ísland. Það hófst með 950 manna þjóðfundi í Laugardalshöll þar sem fólk af öllum aldri, kynjum og víðs vegar að af landinu hittist í heilan dag til að ræða þau gildi sem ættu að liggja nýju stjórnarskránni til grundvallar. Ferlið sem við tók var gegnsætt og opið og almennir borgarar gátu tekið þátt í því. Að lokum var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um nýju stjórnarskrána árið 2012 og þar sögðu 2/3 kjósanda að hún ætti að vera lögð til grundvallar sem stjórnarskrá Íslands.

Alþingi hefur ekki orðið við vilja kjósenda í þessu máli enn sem komið er og það er mjög alvarlegt mál því nýja stjórnarskráin tekur meðal annars á ýmsum málum sem tengjast mannréttindum og baráttu okkar allra til þess að fá raunverulega að sitja við sama borð.

Í nýju stjórnarskránni, samfélagssáttmálanum sem fulltrúar ólíkra hópa íslensku þjóðarinnar sömdu sem leikreglur fyrir valdhafana og grunnlögin okkar, er lögð áhersla á náttúruvernd, mannréttindi og temprun valds. Þar kemur fram að óheimilt sé að mismuna á grundvelli kynhneigðar og fötlunar en þessi orð eru ekki talin upp í jafnræðisreglu gildandi stjórnarskrár. Þá er kveðið á um það að öllum skuli tryggður réttur til að lifa með mannlegri reisn og að margbreytileiki mannlífs skuli virtur í hvívetna. Einnig er fjallað um ofbeldi með orðunum: „Öllum skal tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.“ Sú gamla danska stjórnarskrá sem við burðumst nú með nefnir ekkert af ofangreindu.

Við komumst ekki lengur upp með að leyfa eiginhagsmunum að valta yfir hagsmuni heildarinnar. Mannréttindi mega sín lítils ef við förum ekki að hlúa að náttúrunni og umhverfinu þannig að réttindi komandi kynslóða til lífs séu tryggð til framtíðar. Þess vegna verndar nýja stjórnarskráin náttúruna og kveður á um að auðlindirnar okkar séu þjóðareign og eðlilegt gjald beri að greiða fyrir nýtingu þeirra.

Við þurfum nýja stjórnarskrá og því leyfum við aðgangsorðum hennar að vera síðustu orðin:

Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða
.“

Katrín Oddsdóttir mannréttindalögfræðingur

Helga Baldvins Bjargardóttir, lögfræðiráðgjafi Samtakanna ’78