Velkomin á Hinsegin daga

Sagan okkar – saga hinsegin fólks – er þema Hinsegin daga að þessu sinni. Við lítum um öxl og veltum fyrir okkur hvernig fortíðin hefur mótað það samfélag sem við búum í og okkur sjálf sem manneskjur. Á Íslandi hefur sagan okkar ekki verið skráð nema að litlu leyti en hún býr innra með okkur, sér í lagi þeim sem eldri eru. Mikilvægi þess að hlusta á frásagnir fortíðarinnar er ótvírætt því pólitískir sigrar jafnt sem hversdagslíf þeirra sem á undan okkur komu hefur áhrif á líf okkar, menningu og hugsunarhátt. Við ættum því að sýna sögunni virðingu og læra af henni.

Þó er ekki vænlegt að dvelja eingöngu í fortíðinni; samfélag okkar hefur breyst og við þurfum að laga baráttuna að samtímanum. Hryðjuverkaárásin á skemmtistaðinn Pulse í Orlando, sem tók líf 49 einstaklinga, og aðrir hatursglæpir sem framdir eru gegn hinsegin fólki víða um heim sýna að við þurfum sífellt að vera á varðbergi og minna á að baráttan gegn hómófóbíu, transfóbíu, rasisma og annars konar fordómum er langt því frá búin.

Hinsegin samfélagið verður sífellt stærra og málefnin fjölbreyttari og við verðum að halda áfram að berjast fyrir sýnileika okkar, virðingu og mannréttindum. Sagan okkar verður til þegar þessi orð eru skrifuð og lesin og það er á okkar ábyrgð að feta hinn vandrataða milliveg milli fortíðar og framtíðar; læra af því sem gerst hefur og reyna um leið að sjá fyrir hvað mun hafa farsælust áhrif á framtíðina og þjóna hinsegin fólki samtímans best.

Stjórn Hinsegin daga leggur nú, líkt og áður, áherslu á að hafa dagskrá hátíðarinnar fjölbreytta og höfða til eins margra og mögulegt er. Það er von okkar að þið finnið efni við ykkar hæfi, bæði hér í tímaritinu og á sjálfri hátíðinni, og að þau brot úr sögunni okkar sem birtast á þeim vettvangi séu bæði gagnleg og fræðandi.

Gleðilega hátíð!

– Stjórn Hinsegin daga 2016 –
Eva María Þórarinsdóttir Lange, formaður
Jón Kjartan Ágústsson, varaformaður
Gunnlaugur Bragi Björnsson, gjaldkeri
Ásta Kristín Benediktsdóttir, ritari
Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, meðstjórnandi