Við erum svo hress

„Þið eruð alltaf svo helvíti hress!“ sagði brosandi maður við mig á hátíðarhöldum Hinsegin daga í fyrra. Það er rétt. Við erum alveg helvíti hress. Hjá okkur ríkir stanslaust stuð, biturðinni er skolað niður með regnbogalitum kokteil, kröfugangan gerir einungis kröfu um gleði, meira að segja baráttusöngvarnir okkar eru diskó.

Ef þið eigið í erfiðleikum með að þekkja hina framliðnu úr á meðal okkar, þá takið eftir því að fætur þeirra ná ekki alveg niður á jörðina. Þau eru samt með okkur í gleðigöngunni, félagar okkar sem dóu af völdum alnæmis, ofbeldis eða féllu fyrir eigin hendi. Fáir ef nokkrir samfélagshópar á Íslandi hafa orðið fyrir þvílíkri blóðtöku. Við hin sem erum í göngunni, þau okkar sem snerta jörðina, erum alveg helvíti hress. Samt hafa mörg þeirra sem ganga í dag orðið fyrir ofbeldi vegna sérstöðu sinnar, sum alvarlegu. Sum hafa lent í klónum á trúarsöfnuðum og beðið varanlegan skaða af, sum hafa misst vinnu eða húsnæði, sum hafa misst fjölskyldur sínar, vini, virðingu. Mörg okkar sem göngum í dag höfum lifað tímana tvenna á Íslandi. Og það á fáum árum.

Á dögunum var ég að tala kjark í afríska kynsystur sem þarf að berjast fyrir lífi sínu og sjálfsvirðingu upp á hvern dag, og ég sagði henni að fyrir tuttugu árum hefði heimsins besti lygari ekki einu sinni getað sannfært mig um að veruleiki hinsegin fólks á Íslandi yrði sá sem hann er í dag. Fyrir tuttugu árum hefði ég ekki trúað því að tugþúsundir ættu eftir að mæta á hátíð Hinsegin daga til að sýna okkur stuðning og fagna með okkur, að ungum lesbíum þætti sjálfsagt að gifta sig í kirkju og eignast börn, að íslenska þjóðin ætti eftir að móðgast við fúlan færeyskan þingmann sem neitaði að setjast til borðs með forsætisráðherranum okkar og konunni hennar. Fyrir tuttugu árum voru mörg okkar bara þakklát fyrir það ef okkar eigin fjölskyldur vildu borða með okkur. Tímarnir hafa breyst til slíks batnaðar að tilvera okkar er næstum því óþekkjanleg frá því sem var. Svo auðvitað erum við hress.

Hinsegin fólk á Íslandi hefur valið að horfa ekki um öxl, að dvelja ekki við sársauka fyrri tíðar, heldur horfa fram á við og búast við hinu besta af íslensku samfélagi. Það er alveg hárrétt stefna að mínu viti. Fortíðinni er nefnilega ekki hægt að breyta en staðan í dag er sú að við búum í einu besta landi í heimi hvað varðar réttindi og félagslega stöðu hinsegin fólks. Vissulega ekki fullkomnu – en einu því besta sem gerist. Við búum í samfélagi sem er tilbúið til að hlusta, samfélagi sem gerir sér grein fyrir þeim tækifærum og möguleikum sem hverfa með hverri manneskju sem ekki fær að njóta sérstöðu sinnar og hæfileika.

En þó við horfum ekki um öxl þá er samt nauðsynlegt að muna að þau réttindi sem við höfum í dag voru ekki ókeypis. Þau kostuðu blóð, svita og tár. Bókstaflega. Og þess vegna ber að þakka fyrir þau af auðmýkt. Við erum helvíti hress, en undir niðri erum við mörg líka dálítið angurvær, og því valda allir framliðnu vinirnir sem eru með okkur í göngunni. Þeim hefði líklega þótt gaman að geta gengið almennilega með okkur í dag, með fæturna á jörðinni.

Í dag erum við, hinsegin fólk á Íslandi, frjáls að því að hlúa að sérstöðu okkar og rækta hana og njóta þess að vera öðruvísi í stað þess að gjalda fyrir það. Að hluta til er þessi sérstaða okkar afleiðing af fyrri kúgun: Hvernig við tengjumst hvert öðru á næstum því yfirskilvitlegan hátt, samkenndin sem á engan sinn líka og svo húmorinn og gleðin sem einkennir menningu okkar, gleðin sem við leyfum öllum að njóta með okkur á Hinsegin dögum. Þessi óforskammaði húmor, gleðin sem einu sinni var aðferð til að lifa af við óbærilegar aðstæður, hún er núna bara til að njóta.

Kæru vinir, til hamingju með nútímann. Njótum gleðinnar til fulls!

Birtist fyrst í tímariti Hinsegin daga 2013