Þátttaka í gleðigöngunni 2023

Sjá einnig: „Öryggisreglur og skilmálar“

Upplýsingar til þátttakenda

Ábyrgðaraðilar þurfa að hafa eftirfarandi atriði á hreinu og sjá til að þau berist til allra þátttakenda í þeirra atriði.

Uppstilling og gönguleið

  • Uppstilling hefst klukkan 12:00 við Tækniskólann á Skólavörðuholti og er keyrt inn á uppstillingarsvæðið frá Eiríksgötu. Þegar þátttakendur mæta vísar starfsmaður Hinsegin daga þeim á réttan stað og öryggisstjóri athugar hvort öryggisreglum sé fylgt. Vinsamlega mætið á réttum tíma því uppstilling göngunnar getur verið tímafrek. Gangan hefst kl. 14:00.
  • Gönguleiðin er sú sama og í fyrra. Uppstilling er hjá Tækniskólanum, síðan gengið Skólavörðustíg, Laugaveg, Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuveg. Bílaumferð fer til hægri inn Skothúsveginn og afferming þeirra fer fram þar. Gönguhópar ganga áfram inn Sóleyjargötuna og að lokum enda allir hjá Hljómskálagarðinum.
  • Þegar gangan er komin að gatnamótunum við Skothúsveg, þar sem bílaumferð og gönguhópar skiljast að, er mikilvægt að þátttakendur hlýði fyrirmælum göngu- og öryggisstjóra. Fyrir þátttakendur á bílum er mikilvægt að allir fari hratt og örugglega niður af þeim og þaðan inn í Hljómskálagarð. Bílstjórar aka áfram eftir Skothúsvegi og beygja til vinstri hjá Suðurgötu. Fyrir gönguhópa er mikilvægt að labba alveg inn Sóleyjargötuna svo það myndist ekki teppa.

Sviðstextar

  • Atriði í göngunni eru kynnt áhorfendum. Hvert atriði sér um að semja stuttan texta og senda í tölvupósti á gongustjorn@hinsegindagar.is. Senda þarf sviðstexta til göngustjórnar ekki seinna en á fimmtudaginn 10. ágúst.

Rafstöðvar og/eða hljóðkerfi

  • Leiga á búnaði er talsverður útgjaldaliður fyrir Hinsegin daga. Nokkuð hefur borið á því að fólk hætti við á síðustu stundu og hefur sú ákvörðun verið tekin að þau borgi fyrir leigu á búnaðinum sem hætta við eftir miðvikudaginn 9. ágúst. Við biðjum um kennitölu ábyrgðaraðila og ef atriðið hættir við eftir 9. ágúst verður reikningur sendur í heimabanka viðkomandi. Ef búnaðurinn er notaður berst enginn reikningur.
  • Uppsetning rafstöðva og hljóðkerfa fer fram á plani Sonik tækjaleigu að Jöfurbási 4 við Gufunesveg. Mæting er stundvíslega klukkan 9:00 að morgni göngudags.
  • Aflestun rafstöðva og hljóðkerfa fer fram strax að göngu lokinni hjá tækjaleigu Sonik. Bílstjóri keyrir beinustu leið að Jöfurbási, þar sem tekið er á móti hljóðkerfi og rafstöðvum. ATH! Ef rafstöðvum og hljóðkerfum er ekki skilað fyrir kl. 17 á göngudaginn verða háar dagsektir lagðar á atriðið.
  • Vinsamlegast athugið að rafstöðvar eru fyrirferðamiklar og oft lekur úr þeim bensín eða annað sem vont er að fá í áklæði. Ef þátttakendur vilja koma hljóðkerfi fyrir í fólksbílum þarf að hafa samband við göngustjórn og fá nánari upplýsingar.

Nánari upplýsingar

  • Varðandi gönguna, þáttökuskilyrði og fleira: gongustjorn@hinsegindagar.is og sími 869-3084 (Anna Eir)
  • Varðandi öryggismál: evajoa@hinsegindagar.is og sími 662-4664 (Eva Jóa)