Þátttaka í gleðigöngunni 2022

Sjá einnig: „Öryggisreglur og skilmálar“

Upplýsingar til þátttakenda

Ábyrgðaraðilar þurfa að hafa eftirfarandi atriði á hreinu og sjá til að þau berist til allra þátttakenda í þeirra atriði.

Uppstilling og gönguleið

  • Uppstilling hefst klukkan 12:00 við Tækniskólann á Skólavörðuholti og er keyrt inn á uppstillingarsvæðið frá Eiríksgötu. Þegar þátttakendur mæta vísar starfsmaður Hinsegin daga þeim á réttan stað og öryggisstjóri athugar hvort öryggisreglum sé fylgt. Vinsamlega mætið á réttum tíma því uppstilling göngunnar getur verið tímafrek. Gangan hefst kl. 14:00.
  • Gönguleiðin er sú sama og árið 2019. Uppstilling er hjá Tækniskólanum, síðan gengið Skólavörðustíg, Fríkirkjuveg og Sóleyjargötu og að lokum að sviðinu sem verður í Hljómskálagarði.
  • Þegar gangan er komin að sviðinu við Sóleyjargötu/Bragagötu er mikilvægt að þátttakendur hlýði fyrirmælum göngustjóra. Farið hratt og örugglega niður af bílum og þaðan inn í Hljómskálagarð. Á sama stað er gönguleið inn í Hljómskálagarð fyrir gangandi þátttakendur. Bílstjórar aka áfram eftir Sóleyjargötu, fara beint út úr hringtorginu og þaðan út á Hringbraut.

Sviðstextar

  • Atriði í göngunni eru kynnt áhorfendum. Hvert atriði sér um að semja stuttan texta og senda í tölvupósti á gongustjorn@hinsegindagar.is. Senda þarf sviðstexta til göngustjórnar ekki seinna en á fimmtudaginn 4. ágúst.

Rafstöðvar og/eða hljóðkerfi

  • Leiga á búnaði er talsverður útgjaldaliður fyrir Hinsegin daga. Nokkuð hefur borið á því að fólk hætti við á síðustu stundu og hefur sú ákvörðun verið tekin að þau borgi fyrir leigu á búnaðinum sem hætta við eftir mánudaginn 1. ágúst. Við biðjum um kennitölu ábyrgðaraðila og ef atriðið hættir við eftir 1. ágúst verður reikningur sendur í heimabanka viðkomandi. Ef búnaðurinn er notaður berst enginn reikningur.
  • Uppsetning rafstöðva og hljóðkerfa fer fram á plani Sonik tækjaleigu að Jöfurbási 4 við Gufunesveg. Mæting er stundvíslega klukkan 9:00 að morgni göngudags. 
  • Aflestun rafstöðva og hljóðkerfa fer fram strax að göngu lokinni hjá tækjaleigu Sonik. Bílstjóri keyrir beinustu leið að Jöfurbási, þar sem tekið er á móti hljóðkerfi og rafstöðvum. ATH! Ef rafstöðvum og hljóðkerfum er ekki skilað fyrir kl. 17 á göngudaginn verða háar dagsektir lagðar á atriðið.
  • Vinsamlegast athugið að rafstöðvar eru fyrirferðamiklar og oft lekur úr þeim bensín eða annað sem vont er að fá í áklæði. Ef þátttakendur vilja koma hljóðkerfi fyrir í fólksbílum þarf að hafa samband við göngustjórn og fá nánari upplýsingar (gongustjorn@hinsegindagar.is).