Félagslög

Samþykktir Hinsegin daga í Reykjavík

1 Heiti og hlutverk

1.1 Félagið heitir Hinsegin dagar í Reykjavík – Reykjavik Pride (RP) og hefur aðsetur í Reykjavík.

1.2 Markmið félagsins er:
– að halda árlega hinsegin hátíð í Reykjavík,
– að stuðla með starfsemi sinni að vexti og viðgangi hinsegin menningar og félagslífs í íslensku samfélagi,
– að rækta tengsl við erlendar hreyfingar Pride hátíða og taka þátt í skipulögðu samstarfi við þær,
– þátttaka í starfsemi InterPride.

2 Félagsaðild

2.1 Félagar geta allir gerst sem vilja styðja og vinna að markmiðum félagsins. Bæði einstaklingar og félagasamtök geta gerst félagar.

2.2 Þeir einir teljast félagar sem greitt hafa félagsgjöld viðkomandi árs.

3 Aðalfundur

3.1 Aðalfundur fer með æðsta ákvörðunarvald félagsins. Aðalfund skal halda innan tímabils frá 15. nóvember til 15. desember ár hvert. Rétt til fundarsetu með kosningarétt og kjörgengi hafa félagar samanber grein 2.2.

3.2 Til aðalfundar skal boða með tveggja vikna (14 daga) fyrirvara á sannanlegan hátt, t.d. með tölvupósti, á Facebook síðu og á vefsíðu félagsins. Um leið og boðað er til aðalfundar skal lýsa eftir framboðum til stjórnarkjörs. Framboð skulu berast stjórn skriflega þremur sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar. Frambjóðendur skulu tilgreina embætti sem sóst er eftir. Kjörgengir til stjórnarkjörs eru félagar í RP. Kosið er um einstaklinga í hvert embætti stjórnar en ekki lista.

3.3 Starfsár félagsins fylgir reikningsári félagsins sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.

3.4 Dagskrá aðalfundar er m.a.:
– Kosning fundarstjóra og fundarritara.
– Skýrsla stjórnar.
– Áritaðir reikningar fyrra reikningsárs lagðir fram til umræðu og samþykktar.
– Fjárhagsáætlun nýs reikningsárs kynnt.
– Ákvörðun félagsgjalda.
– Breytingar á samþykktum félagsins.
– Kjör stjórnar, sbr. grein 4.1 og eins skoðunarmanns reikninga til eins árs í senn.
– Önnur mál.

3.5 Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað og sæki hann 10 félagar hið fæsta.

4 Stjórn

4.1 Félagar kjósa stjórn á aðalfundi til að gegna embættum formanns, ritara, gjaldkera og fjögurra meðstjórnenda, til tveggja ára í senn. Kosið er í embætti á víxl á tveggja ára fresti. Annars vegar í embætti formanns og tveggja meðstjórnenda og hins vegar í embætti gjaldkera, ritara og tveggja meðstjórnenda. Kosning skal vera leynileg ef fleiri en einn eru í framboði til einstakra embætta. Hver einstaklingur getur ekki gegnt sama embætti í stjórn lengur en sex ár samfleytt og ekki átt samfellda setu í stjórn félagsins lengur en í tíu ár.

4.2 Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum stjórnar milli aðalfunda.

4.3 Hverfi einhver stjórnarmanna úr stjórn á kjörtímabili skal stjórnin skipa staðgengil hans sbr. grein 3.2 um kjörgengi til stjórnar. Ef tveir eða fleiri stjórnarmenn hverfa úr stjórn skal stjórnin kalla til félagsfundar og efna þar til kosninga um nýja stjórnarmenn til næsta aðalfundar. Til félagsfundar skal boðað með sama hætti og aðalfundar eins og kveðið er á um í grein 3.2.

4.4 Formaður stýrir fundum stjórnar. Í samráði við stjórn ber formaður ábyrgð á að starfsemi félagsins fari samkvæmt samþykktum félagsins. Gjaldkeri ábyrgist fjárreiður, heldur bókhald félagsins og annast alla nauðsynlega samningagerð því tengda. Gjaldkeri er auk þess staðgengill formanns. Ritari heldur fundargerðir stjórnarfunda, sér um að senda þær til stjórnarmanna, varðveitir samþykktir og fundargerðir félagsins og sér til þess að þær séu tiltækar. Að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum eftir því sem þurfa þykir hverju sinni.

4.5 Stjórnin skal halda minnst 5 stjórnarfundi á ári. Stjórnarfundir eru lögmætir ef einfaldur meirihluti stjórnar er til staðar.

4.6 Stjórn skipar nefndir og undirstjórnir til einstakra verka eftir því sem þurfa þykir. Stjórn félagsins ábyrgist gerðir þessara aðila og fylgist með því að settum starfsreglum sé fylgt. Stjórn hefur umboð til að ráða til starfa launað starfsfólk.

5 Samstarf

5.1 Stjórn skal leitast við að eiga í samtali og samstarfi við önnur félög hinsegin fólks og hinsegin samfélagið í heild.

5.2 Eftir að hátíð hvers árs er lokið skal stjórn halda opinn fund þar sem fram fer endurmat á dagskrá og framkvæmd hátíðarinnar. Stjórn er heimilt að halda fleiri opna fundi eftir því sem þurfa þykir.

5.3 Þegar við á, skal stjórn hafa frumkvæði að samtali og samstarfi á milli hinsegin hátíða á Íslandi.

6 Fjármál

6.1 Firmaritun félagsins er í höndum gjaldkera og formanns. Gjaldkeri hefur eftirlit með öllum fjármunahreyfingum félagsins. Þær fara fram á bankareikningum Hinsegin daga í Reykjavík – Reykjavík Pride sem gjaldkeri gerir grein fyrir í ársreikningum á aðalfundi.

6.2 Reikningsár félagsins er frá 1. nóvember til 31. október.

6.3 Gjaldkeri skal kynna uppgjör liðins reikningsárs fyrir stjórn og félagskjörnum skoðunarmanni reikninga fyrir boðaðan aðalfund.

6.4 Gjaldkeri skal á aðalfundi leggja fram fjárhagsáætlun nýs reikningsárs til kynningar.

6.5 Verði hagnaður af rekstri félagsins getur stjórn gert tillögur til aðalfundar um ráðstöfun þess hagnaðar að hluta eða í heild. Þess utan hefur stjórn heimild til að veita tilfallandi styrki enda rúmist þeir innan fjárhagsáætlunar. Ráðstöfun hagnaðar og styrkveitingar skulu hafa það að markmiði að efla menningar- og/eða félagsstarf hinsegin fólks á Íslandi.

7 Breytingar á samþykktum og félagsslit

7.1 Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi. Svo breytingar teljist samþykktar þarf einfaldan meirihluta greiddra atkvæða. Breytingatillögur á auglýstar tillögur, sem fram koma á aðalfundi skulu vera skriflegar. Breyttar samþykktir taka gildi strax að aðalfundi loknum.

7.2 Tillögur að breytingum á samþykktum skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 15. október og skulu sendar út með aðalfundarboði.

7.3 Félagið verður ekki lagt niður nema með samþykkt tveggja aðalfunda. Meðferð tillögu um slit félagsins skal vera eins og um tillögu að breytingum á samþykktum félagsins sé að ræða. Síðari aðalfundur sem staðfestir slit félagsins skal ráðstafa eignum og skuldum félagsins til annarra félagasamtaka í samræmi við markmið RP samkvæmt fyrstu grein samþykkta félagsins, lið 1.2.

Samþykktir þessar voru upphaflega samþykktar á aðalfundi 2007. Breytt á aðalfundi í mars 2014, febrúar 2018, febrúar 2019, febrúar 2020, nóvember 2021 og nóvember 2022.