Hinsegin félagasamtök

Hinsegin dagar í Reykjavík / Reykjavik Pride
www.hinsegindagar.is – pride@hinsegindagar.is – Facebook: reykjavikpride

Hinsegin dagar í Reykjavík – Reykjavík Pride eru sjálfstæð sjálfboðaliðasamtök sem árlega skipuleggja Hinsegin daga í Reykjavík aðra helgina í ágúst. Allir sem styðja markmið hátíðarinnar og vilja vinna með félaginu geta gerst félagar.

Samtökin ’78 – félag hinsegin fólks á Íslandi / The National Queer Organisation
www.samtokin78.is – skrifstofa@samtokin78.is – Facebook: samtokin78

Samtökin ’78 eru elstu og stærstu samtök hinsegin fólks á Íslandi og undir forystu þeirra hafa unnist miklir sigrar í mannréttindamálum á liðnum árum. Markmið félagsins er tvíþætt: Að vinna að baráttu- og hagsmunamálum hinsegin fólks í því skyni að vinna því jafnrétti á við aðra á öllum sviðum þjóðlífsins og að skapa félagslegan og menningarlegan vettvang til þess að styrkja sjálfsvitund þess, samkennd og samstöðu um sérkenni sín.

Q – Félag hinsegin stúdenta / Q – Queer Student Association
www.queer.is – queer@queer.is – Facebook: qfelag

Félag hinsegin stúdenta, Q, var stofnað í janúar 1999. Það heldur uppi öflugu félagsstarfi meðal ungs fólks og hittist á Q-kvöldum í félagsmiðstöð Samtakanna ’78. Eitt af markmiðum félagsins er að vera sýnilegt afl innan háskólasamfélagsins á Íslandi og í forsvari þar þegar málefni hinsegin fólks ber á góma. Félagið er virkur þátttakandi í tveimur samtökum ungs fólks í Evrópu, Transgender-Europe og IGLYO.

Trans-Ísland / Trans Iceland
trans.samtokin78.is – transiceland@gmail.com – Facebook: transisland

Trans-Ísland var stofnað árið 2007 og hefur að markmiði sínu að skapa trans fólki og fjölskyldum þess menningarlegan vettvang og styrkja þannig sjálfsvitund þeirra, vinna að laga- og réttarbótum, auka fræðslu og eiga samstarf við sambærileg samtök hérlendis og erlendis. Fundir Trans-Íslands eru haldnir fyrsta miðvikudag hvers mánaðar í félagsmiðstöð Samtakanna ’78.

Íþróttafélagið Styrmir / Styrmir Sport Club
ststyrmir@gmail.com – Facebook: styrmir.sport

Íþróttafélagið Styrmir var stofnað árið 2006 og er ein af blómlegustu grasrótarhreyfingum hinsegin fólks á Íslandi. Félagið heldur úti reglulegum æfingum í fótbolta, sundi og blaki og er virkt í að halda stóra sem smáa íþróttaviðburði. Árlega taka félagar þátt í íþróttamótum á erlendum og innlendum vettvangi og allir eru hjartanlega velkomnir á æfingar félagsins, bæði byrjendur og lengra komnir.

KMK – Konur með konum / Women with women
kmkkonur@gmail.com – Facebook: kmk.sms

Konur með konum, KMK, varð til sem grasrótarhreyfing lesbía laust fyrir 1990. Tilgangurinn er ekki síst að efla sýnileika lesbía, styrkja samstöðu þeirra og gefa þeim tækifæri til að skemmta sér á eigin forsendum. Stúlkurnar í KMK stunda íþróttir af kappi, einkum blak, og hafa keppt á alþjóðlegum leikum.

Félag hinsegin foreldra / Association of LGBT parents
gayforeldrar@gmail.com – Facebook: felag.foreldra

Félag hinsegin foreldra eru ein yngstu samtökin í flóru hinsegin hreyfinga á Íslandi. Þau hafa það að markmiði að gera lífið skemmtilegra fyrir börn sín, gefa þeim kost á að kynnast og miðla reynslu af foreldrahlutverkinu.

Hinsegin kórinn / Reykjavík Queer Choir
www.hinseginkorinn.is – hinseginkorinn@hinseginkorinn.is – Facebook: hinseginkorinn

Hinsegin kórinn var stofnaður síðsumars 2011. Markmið hans er að vera fordómalaus vettvangur fólks til að hittast og njóta söngs saman, vinna að þátttöku hinsegin fólks í menningarlífinu, vera jákvæð fyrirmynd og stuðla að sýnileika hinsegin fólks. Markmiði sínu hyggst kórinn meðal annars ná með reglubundnum æfingum, tónleikum og söngferðum hér heima og erlendis. Kórinn er öllum opinn að undangengnum raddprófum sem að jafnaði eru haldin við upphaf haust- og vorannar.

HIN – Hinsegin Norðurland
www.hinsegin.net – hinsegin@hinsegin.net – Facebook: hinsegin

HIN – Hinsegin Norðurland eru fræðslu- og stuðningssamtök staðsett á Akureyri. HIN sér um fræðslu um hinsegin málefni fyrir grunn- og framhaldsskóla og stendur fyrir dragkeppni og mörgum öðrum viðburðum ár hvert. Félagið fundar á 3. hæð, nyrðri gangi, í félagsmiðstöðinni Rósenborg kl. 19:30 alla þriðjudaga og allir eru velkomnir

Intersex Ísland / Intersex Iceland
intersex@samtokin78.is

Samtökin Intersex Ísland voru stofnuð 27. júní 2014 og eru samtök fyrir intersex einstaklinga, fjölskyldur þeirra og aðra aðstandendur. Þau funda fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði í húsnæði Samtakanna ‘78.

Kynsegin Ísland / Non-binary Iceland
nonbinaryiceland.tumblr.com – nonbinaryiceland@gmail.com – Facebook: nonbinaryiceland

Kynsegin Ísland var stofnað í september 2013 sem stuðningshópur fyrir fólk á Íslandi sem upplifir sig utan kynjatvíhyggjunnar. Hópurinn hefur stækkað hægt en örugglega frá stofnun og heyrir nú formlega undir Trans-Ísland. Non-binary eða kynsegin málefni hafa verið lítið í deiglunni þangað til nýlega en Kynsegin Ísland vonast til að geta vakið athygli á þeim og veitt fræðslu um hvað það þýðir að vera ekki bara karl eða kona.