Hvert fer ágóðinn?

Þegar að líður á sumarið fara fleiri og fleiri regnbogar að sjást í vörumerkjum, á söluvörum, í búðargluggum og instragram-póstum. Um leið fer óhjákvæmilega af stað umræða um það hvort fyrirtæki séu að nýta sér regnbogann í markaðslegum tilgangi og til þess að stunda bleikþvott eða hagnast á regnbogakapítalisma. Hinsegin samfélagið er ekki búið að tala sig niður á einhverja eina niðurstöðu um hvað sé í góðu lagi og hvað sé ekki í lagi, en hér eru upplýsingar sem forystufólk fyrirtækja gæti viljað lesa áður en þau ákveða að skipta út litapallettunni sinni fyrir regnbogaliti í eina viku.

Hvað er regnbogakapítalismi?

Hugtakið regnbogakapítalismi hefur verið notað yfir það þegar fyrirtæki nota regnbogann og önnur tákn hinsegin samfélagsins í markaðslegum tilgangi, án virkrar og merkingarbærrar þátttöku í hinsegin samfélaginu, baráttu gegn fordómum og misrétti eða þess að ganga úr skugga að ágóðinn af slíku markaðsátaki nýtist hinsegin fólki á nokkurn hátt. 

Hvernig getur fyrirtækið mitt komist hjá því að vera sakað um regnbogakapítalisma?

Ef fyrirtækið þitt vill sýna stuðning við hinsegin fólk með því að skipta út lógói fyrir regnbogaútgáfu af lógóinu er grundvallaratriði að horfa fyrst stíft í spegilinn og spyrja spurninga um það hvort slík yfirlýsing sé gerð af algjörlega heilum hug eða aðeins í markaðslegum tilgangi. Hinsegin samfélagið hefur alls ekki talað sig á neina almenna niðurstöðu um hvort einföld stuðningsyfirlýsing í formi regnbogaskilaboða sé réttlætanleg án annars konar stuðnings, en hér eru nokkrar spurningar sem gætu hjálpað þér og þínu fyrirtæki að kafa dýpra í sjálfskoðuninni:

  • Hefur fyrirtækið sýnt frumkvæði í að skapa hinseginvænan vinnustað með jafnréttisstefnum sem taka fyrir hinseginleikann sérstaklega? 
  • Hefur fyrirtækið skapað sér stefnu í því hvernig þjónusta fyrirtækisins getur verið inngildandi og hinseginvæn?
  • Hefur fyrirtækið stutt við hinsegin fólk fjárhagslega eða með öðrum áþreifanlegum hætti?

En megum við selja vöru með regnbogafána eða öðrum hinsegin táknum í tengslum við PRIDE?

Þið megið auðvitað allt; regnboginn er ekki höfundavarinn. En þið látið ykkur ekki bregða ef þið sætið gagnrýni fyrir það að nýta ykkur regnbogann í markaðslegum tilgangi án þess að styðja við hinsegin fólk í leiðinni.

Hvernig getum við stutt við hinsegin fólk í tengslum við sölu á vöru eða þjónustu undir merkjum hinseginleikans?

Öll starfsemi í kringum hinsegin samfélagið sem slíkt er undirfjármögnuð og myndi taka fjárhagslegum stuðningi fegins hendi frá fyrirtækjum sem eru í góðu standi þegar að kemur að framkomu við hinsegin starfsfólk, þjónustuþega og aðra jaðarsetta hópa. Eftirfarandi verkefni eða skipulagsheildir taka við fjárframlögum, en listinn er ekki tæmandi:

  • Hinsegin dagar – eru aðalhátíð hinsegin fólks á Íslandi og standa fyrir viðburðum þar sem hinseginleikanum er fagnað, baráttumálin eru brýnd og hinsegin þekking er dýpkuð. Til að styðja við Hinsegin daga, hafið samband við gjaldkeri@hinsegindagar.is 
  • Samtökin ‘78 – eru heildarsamtök hinsegin fólks á Íslandi og halda úti mjög víðtækri og fjölbreyttri starfsemi í þjónustu við hinsegin fólk. Á meðan verkefna félagsins eru ráðgjafaþjónusta við hinsegin fólk og aðstandendur, aðstoð við flóttafólk og fræðsla fyrir grunnskóla og aðrar stofnanir. Til að styðja við Samtökin ‘78, hafið samband við skrifstofa@samtokin78.is 
  • Félagsmiðstöð Samtakanna ‘78 og Tjarnarinnar – er félagsmiðstöð fyrir hinsegin unglinga og ungmenni, sem þurfa á öruggu svæði að halda til að fá að vera þau sjálf undir handleiðslu fagfólks. Félagsmiðstöðin er að mestu leyti rekin á sjálfboðavinnu. Til að styðja við Hinsegin félagsmiðstöðina, hafið samband við hrefna@samtokin78.is 
  • Trans Ísland – stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi. Samtökin halda meðal annars úti kyn- og nafnabreytingarsjóði. Til að styðja við Trans Ísland, hafið samband við stjórn samtakanna; stjorn@transisland.is

En megum við skreyta gluggann okkar með regnbogafánum yfir Hinsegin daga?

Já, það er sjálfsagt. Við hvetjum fyrirtæki til þess að kaupa regnbogavarning frá Hinsegin kaupfélaginu, frekar en að kaupa varninginn af óskyldum aðilum sem ekki styðja hinsegin fólk sérstaklega við sölu á regnbogavarningi. Hinsegin kaupfélagið heldur úti netverslun allt árið, en jafnframt heldur það úti staðbundnu kaupfélagi í PRIDE CENTER í aðdraganda Hinsegin daga.

STYÐJANDI FYRIRTÆKI

Eftirfarandi fyrirtæki og stofnanir styðja við hinsegin fólk á virkan, fjárhagslegan máta. Athugið að listinn er ekki tæmandi. Ef þið hafið athugasemdir við listann, vinsamlegast hafið samband við pride@hinsegindagar.is 

Fyrirtæki og stofnanir sem styðja hinsegin samtök

  • Reykjavíkurborg
  • Hafnarfjörður
  • Grindavík 
  • Snæfellsnesbær
  • Fjarðabyggð
  • Samkaup
  • BYKO
  • Omnom
  • Landsbankinn
  • Te og kaffi
  • Norræna húsið
  • Sendinefnd Evrópusambandsins
  • Heildarsamtök launafólks (ASÍ, BHM og BSRB)
  • Tapasbarinn
  • Pink Iceland
  • Jómfrúin
  • Borg Brugghús
  • Flyover Iceland
  • NASDAQ
  • SKY Lagoon
  • Sæta svínið
  • KIKI Queer Bar
  • Elding
  • Sjóvá
  • Geiri Smart
  • Icelandair
  • A4
  • Strætó
  • Fjallkonan
  • Hagkaup
  • Mat bar
  • Advania
  • Garðabær
  • Vínbúðin
  • Siðmennt
  • Íslandsbanki
  • Marel
  • PwC
  • Lalli töframaður 
  • Arína upplýsingatækni
  • Partíbúðin
  • Hamborgarabúlla Tómasar
  • Epal
  • Cintamani

Vörur þar sem hluti af ágóða fer í hinsegin málefni

  • 66° norður – ákveðnar vörur